Innfluttar landbúnaðarvörur
Innflutningur og útflutningur landbúnaðarvara er að ótrúlega miklu leiti bundið við peningum og gleymist að hugsa um hvað við erum lánsöm hér á Íslandi að eiga þá möguleika að vera sjálfbær varðandi kjötframleiðslu og af þeim gæðaflokki sem byggir upp heilsu og vellíðan.
Neytendasamtökin tala fjálglega um frjálsari viðskipti með landbúnaðarvörur en hafa þó þann fyrirvara um að gæðin verði tryggð og undir sambærilegu eftirliti og er með íslensku landbúnaðarframleiðslunni.
En eftirlitið þarf að vera víðtækara en bara eftirlit með salmonellusýkingum eða öðrum sjúkdómum. Og þó merkingar verði með upprunalandi þá fylgir ekki alltaf lýsing á því hvernig dýrin eru fóðruð eða ræktuð yfirleitt.
Því miður hefur komið í ljós að kjúklingaframleiðslunni hér á landi hefur hrakað töluvert þannig að það líkist orðið að mörgu leiti erlendri framleiðslu og sagt að þetta sé nauðsynlegt til að standast eftirspurn. Þess vegna hefur kjötið ekki það næringargildi sem lífræn ræktun felur í sér.
Í hvað sækjumst við varðandi innflutt kjöt ? Er það svona miklu betra en það innlenda ? Það er sök sér að kaupa stöku sinnum kjöt af dýrum þeirrar tegundar sem ekki eru ræktuð hér á landi, og leggja meira upp með að styðja við heilbrigði þjóðarinnar.
Kjöt er mikilvægur grunnur fyrir próteinbúskap mannsins og mun ég hér á eftir lýsa þessu örlítið, skoðunum mínum til stuðnings.
Næringaruppspretta
Öll vitum við að þeir sem borða aðallega skyndibitafæði geta smám saman tapað heilsunni. Mikil vakning hefur orðið varðandi hollt, fæði, hreyfingu og góðan lífsstíl til að efla heilbrigði. Þetta á einnig við um dýrin okkar. Þau sem hafa heilbrigt umhverfi, nærast á æskilegri fæðu og hafa nægt hreyfirými, verða heilbrigðari og gefa af sér hollari afurðir og betri gæði.
Sem dæmi eru mun meira af D-vítamíni og öðrum bætiefnum í villtum laxi heldur en í eldislaxi, nema þar sem sérlega er vandað til fóðursins sem eldislaxinn er alinn á. Svo er einnig um landbúnaðardýrin, en þar við bætist að þau dýr sem hafa tækifæri að vera úti í sólinni geta myndað D-vítamín á sama hátt og maðurinn og gefa því af sér næringarríkari fæðu.
Lífsnauðsynlegt er að vanda sem best gæði þeirrar fæðu sem við neitum. En þegar við neytum dýraafurða þá nærumst við einnig á öðru því sem dýrin hafa verið alin á eða bólusett með. Þannig getum veið að neyta hormóna eða sýklalyfja án þess að vita um innihald eða næringargildi þess kjöts sem er flutt inn, nema að um lífræna ræktun sé að ræða eða einhverskonar vottun.
Virkni hverrar lifandi frumu líkamans byggir á próteinum. Prótein er grunnur fyrir uppbyggingu vöðva, sina, liðbanda, líffæra og kirtla. Allar lifandi frumur og líkamsvessar eins og gall og þvag innihalda prótein. Visst magn próteina úr matvælum eru nauðsynleg fyrir vöxt og þroska barna og unglinga og til að viðhalda heilbrigði mannsins. Prótein byggist upp á amínósýrum en mannslíkaminn þarfnast um 20 tegundir amínósýra til að mynda prótein. Hin fullkomnu prótein innihalda allar grundvallar amínósýrur en þau er helst að fá úr kjöti, alifuglakjöti, fiski, eggjum og mjólkurvörum.
Einnig fást prótein úr jurtum (eins og ávöxtum, grænmeti og korni) en þau innihalda ekki allar nauðsynlegar amínósýrur sem líkaminn þarfnast.
Góð Prótein
• Fást úr lífrænum eggjum og hænsnum sem ræktuð eru á lífrænan hátt en ekki í búrum og áríðandi að þau nærist á sem eðlilegastri næringu.
• Úr kjöti af dýrum sem hafa verið alin á sínu náttúrulega fóðri eins og lambakjöt þar sem kindur hafa nærst á grasi (eins og hér á Íslandi), en ekki þar sem dýrin hafa verið alin eingöngu á korni, hormónum eða sýklalyfjum. Þetta er sérlega tekið fram í fjölda umfjallana um heilbrigði á erlendum heilsuvefjum.
• Mjólkurvörum sem ekki hafa verið gerilsneyddar.
• Villtum fiski sem er svo til frír við kvikasilfur (mercury). Víða er minnst á að sjórinn hér umhverfis landið sé mun minna mengaður en víða annars staðar og að við erum lánsöm að eiga okkar fisk.
• Gott prótein fæst úr spíruðum hnetum og fræjum, en við gefum okkur ekki oft tíma til að leyfa þeim að spíra.
• Jurtaafurðum eins og lífrænt ræktuðum baunum og korni.
Slæm Prótein verða aðallega til við iðnvæðingu landbúnaðarins.
• Kjöt af dýrum sem alast upp í yfirfullu húsnæði, sprautuð með hormónum og sýklalyfjum og alin á maís og öðru korni. Það gefur ekki af sér heilsusamlegt prótein og hefur þetta svo áhrif á heilsu og vaxtarlag þeirra sem neyta þessa kjöts.
• Kjöt af fuglum sem aldir eru upp í búrum og nærast ekki á náttúrulegu fæði, Kjötið er síðan sprautað til þess að það líti betur út en verður af fremur lélegum gæðaflokki. Það hefur síðan áhrif á neytendur.
• Eldisfiskur sem ekki er alinn upp á góðu fóðri er ekki eins ríkur af omega-3 fitusýrum og stundum mengaður vegna sjávarins ef það er ekki sérstaklega haft í huga við eldið.
Einnig þarf að vera varkár við að grilla mat þar sem próteinin geta orðið skaðleg heilsu manna ef þau eru ofhituð.